Fréttir

Vísindaskólinn hittir beint í mark!

Þriðja sumarið í röð tekur Vísindaskóli unga fólksins á móti börnum  á aldrinum 11-13 ára til þess að opna þeim gátt inn í  heim vísinda og leyndardóma lífsins. Skráning er hafin en undanfarin ára hafa færri komist að en vildu. Skólastarfið fer fram vikuna 19-23. júní og verður boðið upp á fimm ný umfjöllunarefni.

Vísindaskóli unga fólksins hefur fest sig í sessi sem sumartilboð fyrir börn sem vilja fræðast um ævintýri vísindanna. Að þessu sinni verður unnið með umhverfis og orkumál, búin til hljóðfæri og tónlist tekin upp. Þátttakendur læra að forrita og fræðast um hvernig forritun er notuð í leik og starfi. Þátttakendur vinna í tilraunaeldhúsi og safna ætum jurtum og nýta þær. Loks verður unnið með fjölbreytileika og aðstöðumun fólks í lífinu.  Öll temun tengjast hefðbundnu námi skólans.

„ Stuðningur samfélagsins við þetta metnaðarfulla verkefni hefur verið okkur ómetanlegur“, segir Sigrún Stefánsdóttir, skólastjóri Vísindaskóla unga fólksins. Hún segir að drengir ekki síður en stúlkur hafi sótt skólann en það sé sérstaklega mikilvægt. 

„Við þurfum að nota allar færar leiðir til þess að opna augu drengja fyrir gildi náms og opna augu þeirra fyrir fjölbreyttum störfum.  Viðbrögð þeirra sem við höfum leitað til eftir stuðningi við verkefnið hafa verið einstök. Akureyrarbær, KEA og  Norðurorka eru stærstu styrktaraðilarnir en fjölmargir aðrir hafa veitt okkur fjölbreyttan og ómetanlegan stuðning. Nokkur félagasamtök styrkja sérstaklega börn sem hefðu annars ekki átt kost á að skrá sig í skólann“.

Flest þau börn sem hafa sótt skólann síðustu tvö árin hafa komið frá Akureyri og nágrenni en einnig eru þess dæmi að börn komi lengra að, jafnvel frá útlöndum.                                                                  

Þátttakan undanfarin tvö ár fór fram úr björtustu vonum og undirbúningur er nú í fullum gangi fyrir vorið. Fjölmargir af reyndustu kennurum háskólans bera ábyrgð á kennslunni þessa viku í júní.