Fréttir

Vísindaskóli unga fólksins hlýtur styrk úr Menningar- og viðurkenningasjóð KEA 2018

Vísindaskóli unga fólksins hlaut styrk úr flokkum menningar- og samfélagsverkefni en þetta er í annað sinn á fimm árum sem skólinn hlýtur styrk frá KEA og nú að upphæð 300.000 þúsund kr. Vísindaskólinn sem er í umsýslu RHA – Rannsóknarmiðstöðvar Háskólans á Akureyri er samfélagslegt verkefni og hafa mörg fyrirtæki og félög stutt dyggilega við bakið á Vísindaskólanum frá upphafi og hefur KEA verið eitt þeirra.

Styrkúthlutunin fór fram við hátíðlega athöfn í Menningarhúsinu Hofi 1. desember síðastliðinn. Þetta var í 85. skipti sem KEA veitir styrki úr sjóðnum. Alls bárust um 140 umsóknir til sjóðsins en úthlutað var rúmlega 15,6 milljónum króna til 64 aðila. 

Veittir voru styrkir úr þremur flokkum: Menningar- og samfélagsverkefni, Rannsókna- og menntastyrkir og Íþrótta- og æskulýðsstyrkir. 

 


 

Vísindaskólinn í vexti                                                                                                                                                                                                              

Vísindaskóli unga fólksins verður starfræktur í fjórða skipti dagana 18-22. júní 2018. Ný og fersk dagskrá verður í boði, en skólinn er ætlaður aldurshópnum 11-13 ára.

Fjölmargir styrktaraðilar gera starfsemi skólans mögulega en nýlega skrifaði Norðurorka undir samning til þriggja ára um fjárstuðning til Vísindaskóla unga fólksins að upphæð 750.000 kr. á ári.  Helgi Jóhannesson forstjóri Norðurorku skrifaði undir samninginn ásamt þeim Sigrúnu Stefánsdóttur og Sigrúnu Vésteinsdóttur en þær hafa haldið utan um starfsemi skólans frá upphafi.

Landsbankinn veitti Vísindaskólanum einnig styrk á dögunum að upphæð 500 þúsund krónur úr Samfélagssjóði sínum. Bankastjóri útibús Landsbankans á Akureyri, Arnar Páll Guðmundsson, afhenti nöfnunum Sigrúnu Stefánsdóttur og Sigrúnu Vésteinsdóttur, viðurkenningarskjal Samfélagssjóðsins að því tilefni.                                                                                                              

Þess skal getið að Norðurorka hefur frá upphafi komið á einhvern hátt að starfsemi skólans, bæði með fjárstuðningi en líka með virkri þátttöku í kennslunni.   Fleiri hafa stutt skólann m.a Akureyrarbær, KEA, Góðvinir Háskólans á Akureyri, Raftákn og ýmsir klúbbar á svæðinu.

Stuðningur samfélagsins er forsenda þess að hægt sé að starfrækja skólann og segir Sigrún Stefánsdóttir, skólastjóri Vísindaskólans, það vera afar mikilvægt að fá fasta bakhjalla fyrir starfsemina til þess að tryggja hana í sessi til framtíðar. „Reynsla undanfarandi þriggja ára hefur sýnt okkur að augu þátttakenda í Vísindaskólanum opnast fyrir gildi menntunar og þau kynnast háskólastarfi í heimabyggð. Það er líka sérstakt gleðiefni fyrir okkur að drengir sækja skólann ekki síður en stúlkur og vonandi verður það þeim hvatning seinna meir til þess að fara í háskólanám“, segir Sigrún.