Markmið Vísindaskólans er að bjóða ungmennum fædd 2012-2014 (11-13 ára) upp á fræðandi og skemmtilega afþreyingu. Þar fá ungmennin að kynnast þemum sem endurspegla fjölbreytt námsframboð Háskólans á Akureyri.
Skipulag Vísindaskólans er þannig að kennd verða fimm námskeið, eitt á hverjum degi. Nemendum verður skipt upp í fimm hópa og fer hver hópur í gegnum öll námskeiðin. Nemendur fá sendar til sín upplýsingar um það í hvaða hópi þeir eru og í hvaða röð þeir fara í gegnum námskeiðin áður en skólinn hefst.
Vísindaskólinn stendur frá kl. 9:00 – 15:00, dagana 23. - 27. júní 2025.
Námskeið Vísindaskólans 2025 eru eftirfarandi:
Pöddulíf og hljóðin í trjánum
Hvaða smádýr eru með flesta fætur? Hvað borða köngulær og hver borðar þær? Heimsókn í Lystigarðinn. Lærum um plöntur og hlustum á hvað trén hafa að segja.
Hvað kostar að vera unglingur? Er hægt að gera við dýru úlpuna?
Fyrstu fjármálaskrefin tekin og reiknað hvað föt á ungling kosta. Hugsum áður en við hendum. Hvað er hægt að endurnýta og gera við? Geta föt mengað umhverfið?
Risaeðlur og þróun mannsins. Af hverju erum við ekki öll eins?
Þróun manna og dýra. Hvenær hættu hvalir að ganga? Hvað eru kynþættir og hvað er það sem stjórnar því hvernig okkur líður?
Hvernig er flott mynd og geta myndir logið?
Hvað er góð mynd og hvað er vond mynd? Viltu læra að taka góða mynd? Má hver sem er taka mynd af mér? Fréttalæsi, falsmyndir og gervigreind.
Hver stjórnar landinu og hvernig bjó fólk í gamla daga?
Til hvers er Alþingi og hvernig vinnur fólkið þar? Var til mygla í húsum í gamla daga? Heimsókn í torfbæ en þar var ekkert Wi-Fi og enginn ísskápur.
__________________________________________________________
Nánari upplýsingar veitir Dana Rán Jónsdóttir, verkefnastjóri Vísindaskólans; dana@unak.is eða í síma 460-8906. Skólastjóri Vísindaskólans er Sigrún Stefánsdóttir og er hægt að ná á henni í síma 861-4499.
____________________________